Innlent

Færeyingar skoða Landspítalann

Sendinefnd skipuð helstu stjórnendum færeyska Landssjúkrahússins kom til Íslands í dag. Tilgangurinn með heimsókninni er að skoða aðstæður á Landspítala háskólasjúkrahúsi með það fyrir augum að auka til muna samstarf milli færeyska Landssjúkrahússins og Landspítala. Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, tók á móti sendinefndinni í dag.

Heimsóknin er að frumkvæði Landssjúkrahússins sem kannar nú þann möguleika að senda færeyska sjúklinga í auknum mæli til Íslands.

Sjúkrahúsið horfir til þeirrar sérfræðiþekkingar sem Landspítali hefur yfir að ráða og er af skornum skammti í Færeyjum.

Á þessu ári hefur Landspítali tekið á móti fleiri sjúklingum frá Færeyjum, en nokkru sinni fyrr. Um tíu Færeyingar hafa gengist undir krabbameinsmeðferð hér á landi það sem af er þessu ári og er það til marks um vilja beggja sjúkrahúsanna um að auka samstarf sín á milli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×