Innlent

Kalla eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar

Ingibjörg og Geir. Ungir framsóknarmenn vilja að þau geri eitthvað.
Ingibjörg og Geir. Ungir framsóknarmenn vilja að þau geri eitthvað. Mynd/ Pjetur.

Ungir framsóknarmenn í Reykjavík kallar eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að endurheimta þann stöðugleika í efnahagslífi þjóðarinnar sem ríkti í ríkisstjórnartíð framsóknarmanna. Þetta kemur fram í ályktun sem þeir sendu frá sér í dag.

„Mikilvægt er að glutra ekki árangri síðustu ára niður með aðgerðarleysi og dauflyndi. Því telja ungir framsóknarmenn í Reykjavík brýnt að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefjist nú þegar handa við að tryggja að hér verði ekki brotlending í atvinnulífinu með tilheyrandi gjaldþrotum, atvinnuleysi og landflótta. Ljóst er að stefna ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og aðgerðir Seðlabankans í peningamálum vinna ekki saman nú um stundir og telja margir afleiðingu síðustu stýrivaxtahækkunar þá að íslenskt atvinnulíf innleiði evru án aðkomu ríkisvaldsins. Lokadagar íslensku krónunnar séu því í nánd," segir í ályktun ungra framsóknarmanna.

Þá hvetja ungir framsóknarmenn í Reykjavík ríkisstjórnina til að hefja nú þegar aðildarviðræður við Evrópusambandið með inngöngu í huga. Þeir segja ljóst að staða íslensks efnahagslífs og hagsmunir þjóðarinnar kalli á að það verði gert.

„Kröftugt og framsækið atvinnulíf ásamt öflugu velferðarkerfi er forsenda þess að Ísland sé samkeppnishæft við aðrar þjóðir hvað varðar aðlaðandi búsetu fyrir ungt fólk. Ef ríkisstjórnin treystir sér ekki til aðgerða verður hún að biðjast lausnar og fela ábyrgum aðilum að taka hér við stjórnartaumunum. Framsóknarflokkurinn mun ekki skorast undan í þeim efnum," segja ungir framsóknarmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×