Innlent

Meirihluti þingflokks Framsóknar vill ESB-viðræður

Siv Friðleifsdóttir þingflokksformaður, Guðni Ágústsson formaður og Valgerður Sverrisdóttir varaformaður.
Siv Friðleifsdóttir þingflokksformaður, Guðni Ágústsson formaður og Valgerður Sverrisdóttir varaformaður.

Meirihluti þingmanna Framsóknarflokksins vill að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið. Guðni Ágústsson, formaður flokksins, og Bjarni Harðarson eru í minnihluta í þingflokknum.

Á kjördæmisþingi framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi 26. október og nú seinast í Suðvesturkjördæmi kemur fram skýr vilji framsóknarmanna í ljósi breyttra þjóðfélagsaðstæða skuli hefja samningaviðræður um inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru. Áður hefur Samband ungra framsóknarmanna líst sig fylgjandi aðilarviðræðum. Það hafa Halldór Ásgrímsson og Jón Sigurðsson, fyrrum formenn flokksins, einnig gert.

Skýr skilaboð frá grasrótinni

,,Þetta eru mjög skýr skilaboð frá grasrótinni í Framsóknarflokknum sem er að leggja þingmönnum flokksins línurnar hver stefna flokksins eigi að vera í Evrópumálum," sagði Birkir Jón Jónsson í samtali við Vísi og bætti við að ályktunin í Norðausturkjördæmi hafi verið samþykkt af þungavigtarfólki í flokknum. Þrír af sjö þingmönnum Framsóknarflokksins koma úr kjördæminu. Það eru Birkir Jón, Höskuldur Þórhallsson og Valgerður Sverrisdóttir varaformaður flokksins.

Gengur lengra en núverandi stefna

Samþykktir kjördæmaþinganna ganga lengra en stefna flokksins sem var samþykkt á miðstjórnarfundi í byrjun mars. Þar var kveðið á um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá fyrri um hvort hefja eigi í aðildarviðræður og þá seinni um hugsanlega inngöngu í Evrópusambandið. Í ræðu á fundinum sagði formaður flokksins að áður en þær komi til framkvæmda verði að gera breytingar á stjórnarskránni og af þjóðaratkvæðagreiðslu geti fyrst orðið í lok þessa kjörtímabils eða í síðasta lagið árið 2011.

Þingflokkur Framsóknarflokksins.

Magnús Stefánsson þingmaður Norðvesturkjördæmis sagði á heimasíðu sinni 3. október að krónan hefði runnið sitt skeið og aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru væri eini kosturinn í stöðunni.

,,Ég er Evrópusinni"

,,Ég studdi tillöguna um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu á miðstjórnarfundinum og ég studdi mjög eindregið ESS-samninginn á sínum tíma. Ég er Evrópusinni og ég tel eðlilegt að þjóðin kveði upp úr um það hvort hún vilji ganga í Evrópusambandið eða ekki," sagði Siv Friðleifsdóttir þingflokksformaður Framsóknarflokksins og þingmaður Suðvesturkjördæmis í samtali við Vísi.

Óróamenn í flokknum

Bjarni Harðarson þingmaður Suðurkjördæmis er andstæðingur aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Hann hefur jafnframt sett fram þá hugmynd að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið verði endurskoðaður. Í framhaldi á kjördæmaþingi flokksins í Suðurkjördæmi í október sagði Bjarni óróamenn í flokknum vísvitandi reyna að gera flokknum tjón með umræðu um Evrópumál.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×