Innlent

Persónuafsláttur hækkar verulega

Persónuafsláttur hækkar nú um áramótin um rúmlega átta þúsund krónur á mánuði og fer í liðlega 42 þúsund krónur.

Ekki liggur enn fyrir hver skattprósentan verður í staðgreiðslukerfinu því fjármálaráðuneytinu hafði í morgun ekki borist tilkynningar frá öllum sveitarfélögum um útsvarsprósentuna.

Alþingi ákvað hins vegar að hækka tekjuskattsprósentuna um 1,25 prósentustig og heimilaði sveitarfélögum að hækka hámarksútsvar um 0.25 prósentustig.

Stærsta sveitarfélag landsins, Reykjavík, er meðal þeirra sem ekki nýta sér þessa heimild og því verður hækkun skattprósentunnar því eittthvað lægri en búist var við.

Skattprósentan í staðgreiðslunni er á þessu ári 35,72 prósent og líklegt að hún verði í kringum 37,1 prósent eftir áramót, og hækki þannig um nærri 1,4 prósentustig. Mikil hækkun persónuafsláttar mun hins vegar hjá þorra launþega vega upp þessa skattahækkun því hann mun, samkvæmt auglýsingu fjármálaráðuneytsins, sem birt verður í dag, hækka um 24 prósent.

Persónuafslátturinn er nú 34.034 krónur en hann fer í 42.205 krónur á mánuði. Það sem skýrir þessa miklu hækkun er loforð stjórnvalda vegna kjarasamninga um að láta personuafsláttinn fylgja vísitöluhækkun, sem reyndist vera 18,1 prósent, og hækka hann því til viðbótar um 2.000 krónur.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.