Innlent

Neitar ekki ummælum um borgarráð og andlega ruslakistu

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, er formaður borgarráðs.
Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, er formaður borgarráðs.

Óskar Bergsson formaður borgarráðs neitar ekki að hafa sagt við Ólaf F. Magnússon á fundi ráðsins fyrir viku að borgarráð væri ekki ruslakista fyrir andlegt rusl úr Ólafi. Ekki hefur náðst í Óskar varðandi málið fyrr en nú.

Ólafur ætlaði að leggja fram bókun á fundi borgarráðs 4. desember þar sem hann mótmælti framkomu og ummælum Óskars á borgarstjórnarfundi í seinustu viku. Ólafur segir að Óskar hafi neitað að taka bókunina á dagskrá með eftirfarandi orðum: „Borgarráð er ekki ruslakista fyrir andlegt rusl úr þér."

Óskar segir að verið sé að æra óstöðugan með því að taka upp mál sem hafi átt sér stað fyrir viku. ,,Samkvæmt reglum um fundarsköp Reykjurvíkurborgar og nýsamþykktum siðareglum eru menn ekki að hafa slíka hluti eftir hvorum öðrum á lokuðum fundum," segir Óskar spurður hvort hann hafi viðhaft umrædd orð um Ólaf.

„Ólafur F. Magnússon hleypir upp fundum borgarráðs með reglulegu millibili. Hann er oft með mál sem eru ekki á dagskrá eins og gerðist á fundi borgarráðs fyrir viku," segir Óskar.

Aðspurður hvort um alvarlegan hlut sé að ræða af hálfu Ólafs að vitna í ummæli sem féllu á fundi borgarráðs segir Óskar: „Ólafur þarf að gera upp við sig hvort hann er að brjóta reglur um fundarsköp Reykjavíkurborgar. Ég hef ekki séð sérstaka ástæðu til að gera athugasemd við það."

Óskar telur afar mikilvægt að borgarfulltrúar og aðrir fulltrúar nýti fundartíma borgarráðs og fagráða í það sem skipti máli og haldi sig við boðaða dagskrá.






Tengdar fréttir

Hart sótt að Ólafi F í borgarstjórn

„Borgarráð er ekki ruslakista fyrir andlegt rusl úr þér," segir Ólafur F Magnússon að Óskar Bergsson formaður borgarráðs hafi sagt um sig á fundi borgarráðs í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×