Lífið

Árni Matt skálaði í Skjálfta í Köben

Árni Mathiesen og Guðrún Ágústsdóttir í opnunarhófinu.
Árni Mathiesen og Guðrún Ágústsdóttir í opnunarhófinu. MYND/Hasse Ferrold

Árni Mathiesen fjármálaráðherra var á meðal gesta í sendiráðinu í Kaupmannahöfn síðasta fimmtudag en þá var haldið „formlegt opnunarhóf bjórsins Skælv," en sá góði mjöður gengur undir nafninu Skjálfti hér á landi og er íslensk framleiðsla frá Ölvisholti Brugghúsi. Guðrún Ágústsdóttir sendiherrafrú setti opnunarhófið en Árni Mathiesen fjármálaráðherra, forsvarsmenn Ölvisholts og dreifingaraðila þeirra í Danmörku fluttu ávörp.

„Bjórinn Skælv verður frá og með deginum í dag 15.september, fáanlegur í bjór og víndeild Magazin du Nord í Kaupmannahöfn. Í nóvember kemur svo á markað jólaöl frá Ölvisholti sem fer í sölu í Coop verslunarkeðjunni, í kjölfarið fer svo Skælv í dreifingu víða um Danmörku í sömu verslunarkeðju," segir í tilkynningu frá Ölvisholti.

Í sömu tilkynningu er sagt frá því að bjórinn góði hafi fengið glimrandi dóma í danska blaðinu Extra Bladet. „Bjórinn Skælv var síðan kynntur á European Beer Festival sem haldin var í Carlsberg verksmiðjunni í Kaupmannahöfn helgina 12-14 september. Þar fékk bjórinn góða dóma hjá þeim sem smökkuðu en heimsóknin til Danmerkur var svo kórónuð með bjórdómi Ole Madsen í Extra Bladet á laugardeginum 13. sept 08 en þar fékk Skjálfti 6 stjörnur af 6 mögulegum," segir í tilkynningunni og því bætt við að hamingjuóskum hafi rignt yfir eigendur og bruggmeistara bjórsins enda um mikinn heiður að ræða.

Ölvisholt Brugghús stefnir að því að flytja út 100 tonn af bjór til Danmerkur á ári hverju en þegar hefur verið gengið frá samningum um söluna við dreifingaraðila þar í landi. Til þessa hafa um 50 - 60 tonn af bjór verið flutt út þannig að um mikla aukningu er að ræða.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.