Innlent

Lýsing svarar fyrir sig

Sturla Jónsson var á meðal þeirra sem heimsóttu forsvarsmenn Lýsingar.
Sturla Jónsson var á meðal þeirra sem heimsóttu forsvarsmenn Lýsingar.

Fjármögnunarfyrirtækið Lýsing hf. hefur sent frá sér tilkynningu þar sem ásökunum viðskiptavina þeirra er svarað. Í morgun hittu forsvarsmenn Lýsingar nokkra vörubílstjóra á fundi sem vildu mótmæla innheimtuaðgerðum fyrirtækisins.

„Það að Lýsing hf. færi áætlaðan viðgerðarkostnað yfir á leigutaka sem hreina viðbót við að það að samningi sé rift er byggt á misskilningi," segir í yfirlýsingunni. „Þegar leigutaki skrifar undir samning hjá Lýsingu hf. samþykkir hann ákvæði þess efnis að honum beri að halda hinu leigða vel við og láta gera við allar skemmdir og bilanir jafnóðum og þær verða, jafnframt því að fylgja reglum framleiðanda/seljanda við notkun leigumunar."

„Sé samningi við leigutaka sagt upp, sem oftast verður vegna greiðsludráttar leigutaka, hefur Lýsing hf. heimild til að fara með leigumun í sérstaka söluskoðun eftir að honum hefur verið skilað, hjá umboðsaðila, á skoðunarstöð eða á viðurkenndu verkstæði þar sem metinn er kostnaður við að koma honum í það ástand sem samningur og þjónustubók gera ráð fyrir. Þessi áætlaði viðgerðarkostnaður kemur til lækkunar á því verðmati sem Lýsing hf. metur leigumun á við lokauppgjör," segir ennfremur.

Þá segir í yfirlýsingunni að sú fullyrðing, að Lýsing hf. sé að leysa til sín leigumuni þegar ekki hefur verið greitt af samningum í einn til tvo mánuði sé ekki rétt. „Lýsing hf. reynir eftir fremsta megni að finna leiðir með sínum viðskiptamönnum svo þeir geti uppfyllt gerða samninga."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×