Innlent

Eigendum fjölmiðla hættir til að nýta þá í eigin þágu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kolbrún Halldórsdóttir vill að ritstjórnarstefna fjölmiðla sé skýr.
Kolbrún Halldórsdóttir vill að ritstjórnarstefna fjölmiðla sé skýr.

„Við verðum að horfast í augu við það að ef til vill ber þetta samfélag sem við búum í ekki þá fjölmiðla sem við vildum gjarnan bera," segir Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Vinstri grænna. Kolbrún segir að þegar markaðurinn sé þannig skipti mestu máli að þeir fjölmiðlar sem eru til staðar séu góðir, hafi til þess burði að segja góðar fréttir og vera aðhald fyrir ráðamenn.

Eftir að Jón Ásgeir Jóhannesson eignast fjölmiðlahluta 365 og stærstan hlut í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, mun hann eiga hlut í öllum helstu einkareknum fjölmiðlum að undanskildu Viðskiptablaðinu og fréttavefnum Eyjunni.

Kolbrún segir að mönnum sem eigi fjölmiðla hætti til að nýta sér þá í eigin þágu. Það þurfi hins vegar ekki að vera lögmál og þess vegna skipti máli að fjölmiðill sé með stefnu sem almenningur viti hver er starfsfólkið þekki vel. „Þannig að ég fordæmi þetta alls ekki, en það eru gríðarlegar hættur sem ber að varast. Þannig að þetta er spurning um meðvitund og motivation," segir Kolbrún. Hún segir mikilvægt að fréttastofur séu sjálfstæðar og óháðar eigendum sínum, hvort sem þær eru í einkaeigu eða eigu hins opinbera.

Kolbrún segist styðja þann hóp sem Þorgerður Katrín stofnaði fyrir helgi, til þess að fara yfir stöðu fjölmiðla og móta stefnu í þeim málum. Hún segir mikilvægt að stjórnmálamenn fari yfir það hvernig hægt er að skapa fjölbreytilega flóru á fjölmiðlamarkaðnum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×