Innlent

Reiknar með fjölmenni á félagsfundi

Gunnar Páll Pálsson, formaður VR.
Gunnar Páll Pálsson, formaður VR.

,,Ég veit ekki á hverju ég á von þar sem ég hef fengið stuðning frá félagsmönnum en líka gagnrýni," segir Gunnar Páll Pálsson, formaður VR, um félagsfund sem haldinn verður í kvöld.

Gunnar liggur undir þungu ámæli fyrir að hafa setið í stjórn Kaupþings sem fulltrúi Lífeyrissjóðs VR og tekið þátt í því í septemberlok að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna sem höfðu keypti hluti í bankanum og tekið til þess lán.

Gunnar ætlar að fara fyrir málið á fundinum með félagsmönnum. ,,Ég fer eftir því sem félagsmenn segja en ég tel mig þurfa skýrari skilaboð heldur en að það standi 10 til 20 manns úti á stétt. Þess vegna er þessi fundur boðaður."

Undanfarna daga hefur hópur félagsmanna í VR staðið fyrir mótmælum í hádeginu fyrir utan höfuðstöðvar félagsins.

Félagsmaður í VR hafði samband við Vísi og gagnrýndi að félagsfundurinn sé ekki auglýstur í dagblöðunum í dag. Gunnar bendir á að fundurinn hafi verið auglýstur í öllum blöðum á þriðjudaginn.

Aðspurður segist Gunnar reikna með því að fjölmenni verði á fundinum sem hefst klukkan 19:30 og fer fram á Grand hóteli í Sigtúni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×