Innlent

Sagði niðurfellinguna í Kaupþingi standast lög

Helgi Sigurðsson, aðallögmaður og ritari stjórnar Gamla Kaupþings, gaf stjórnarmönnum það lögfræðilega álit á stjórnarfundi 25. september síðastliðinn að það stæðist lög að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna bankans vegna lána sem þeir tóku til að kaupa hlutafé í bankanum.

Þetta staðfesti Gunnar Páll Pálsson, formaður VR, í viðtali við fréttastofuna í gærkvöldi en hann sat í stjórn Gamla Kaupþings sem fulltrúi hlutafjáreignar VR í bankanum. Með því stóðu bréfin sjálf sem tryggingar fyrir fyrir lánum vegna kaupa á þeim sjálfum en kaupendur voru ekki lengur ábyrgir fyrir lánunum.

En eftir yfirtöku ríkisins á bankanum eru þau einskis virði en starfsmennirnir sluppu með skrekkinn. Fram kemur í Morgunblaðinu i dag að Helgi Sigurðsson, lögmaður bankans, hafi nýtt sér kaupréttarsamninga en ekki liggur fyrir hvort hann var búinn að greiða upp lán vegna kaupanna eða slapp við ábyrgð á lánum eins og aðrir starfsmenn þegar bankinn fór í þrot.

Helgi heldur stöðu sinni sem yfirlögfræðingur bankans eftir yfirtöku ríkisins og hefur því væntanlega hönd í bagga með þeirri rannsókn, sem nú á að fara fram um lögmæti niðurfellingar ábyrgðarinnar, sem hann sjálfur sagði stjórninni að væri lögleg aðgerð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×