Fótbolti

Ítalía mun mæta Spáni

Elvar Geir Magnússon skrifar
Andrea Pirlo og Simone Perrotta fagna marki þess fyrrnefnda.
Andrea Pirlo og Simone Perrotta fagna marki þess fyrrnefnda.

Ítalska landsliðið komst upp úr C-riðli Evrópumótsins. Liðið vann Frakkland 2-0 í kvöld á sama tíma og Holland vann Rúmeníu 2-0.

Ítalía fer því úr dauðariðlinum í átta liða úrslit keppninnar þar sem mótherjinn verður Spánn. Holland mætir hinsvegar Rússlandi eða Svíþjóð.

Ítalir mættu mun ákveðnari til leiks en Frakkar og komust yfir eftir vítaspyrnu frá Andrea Pirlo sem dæmd var eftir að brotið var á Luca Toni. Eric Abidal var brotlegur, gerði skelfileg mistök og fékk að líta rauða spjaldið.

Raymond Domenech, þjálfari Frakka, gerði þá breytingar á liðinu og tók Samir Nasri af velli. Nasri hafði aðeins verið á vellinum í tuttugu mínútur en hann kom inn sem varamaður þegar Franck Ribery meiddist og yfirgaf völlinn á börum.

Ítalía var mun sterkara liðið í fyrri hálfleik og Luca Toni brenndi af nokkrum dauðafærum. Þá komst bakvörðurinn Fabio Grosso nálægt því að skora en frábær aukaspyrna hans var varin í stöngina.

Annað mark Ítalíu kom loks eftir fimmtán mínútna leik í seinni hálfleik, það skoraði Daniele De Rossi. Boltinn hafði viðkomu í leikmanni Frakklands áður en hann þandi netmöskvana.

Hollendingar gerðu níu breytingar á byrjunarliði sínu fyrir leikinn gegn Rúmeníu enda búnir að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum. Klaas Jan Huntelaar kom Hollandi yfir eftir tíu mínútna leik í seinni hálfleik. Robin van Persie innsiglaði síðan 2-0 sigur Hollands sem kláraði riðilinn með markatöluna 9-1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×