Innlent

Hanna Birna mætir best en Sigrún Elsa verst

Frá fundi borgarstjórnar 21. ágúst sl.
Frá fundi borgarstjórnar 21. ágúst sl.

Sigrún Elsa Smáradóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, hefur mætt verst allra borgarfulltrúa á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur það sem af er ári.

Haldnir hafa verið 19 borgarstjórnarfundir á árinu og hefur Sigrún Elsa ekki komið á fimm þeirra. Næst á eftir henni koma Gísli Marteinn Baldursson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, en bæði hafa verið fjarverandi fjórum sinnum á árinu.

Hanna Birna mætir best

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, hefur mætt á alla fundina og aldrei fengið varamann til að koma inn í sinn stað ólíkt flestum öðrum borgarfulltrúum. Borgarfulltrúar geta kallað inn varamenn eigi þeir ekki kost á að mæta þegar fundur í borgarstjórn hefst eða á meðan á fundi stendur.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur líkt og Hanna Birna komið á alla fundi borgarstjórnar en tvívegis hefur hann þurft að fá varamenn til að leysa sig af.

Ólafur F. Magnússon, fyrrum borgarstjóri, hefur mætt á alla fundi nema einn á árinu. Líkt og Hanna Birna hefur hann aldrei þurft að fá varamann til að hlaupa í skarðið.

Gísli mætt illa í haust

Frá því að núverandi meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var myndaður í ágúst hafa verið haldnir átta fundir í borgarstjórn.

Átta borgarfullrúar hafa mætt á þá alla. Gísli Marteinn hefur forfallast fjórum sinnum og Sigrún Elsa þrisvar sinnum. Gísli mætti á alla fundi borgarstjórnar fram að meirihlutaskiptunum í ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×