Innlent

Ríkisstjórnin ber ábyrgð á auknu atvinnuleysi og hruni heimilanna

Finnbjörn A. Hermannsson er formaður Samiðnar.
Finnbjörn A. Hermannsson er formaður Samiðnar.

Miðstjórn Samiðnar lýsir fullri ábyrgð á hendur íslenskum stjórnvöldum vegna vaxandi atvinnuleysis og efnahagslegu hruni heimilanna.

Við blasir meira atvinnuleysi en þekkst hefur í marga áratugi og framundan er efnahagslegt hrun þúsunda heimila, að mati miðstjórnar Samiðnar.

,,Orsakir þessa ástands er að stórum hluta heimatilbúinn vandi m.a. vegna óstjórnar í íslenskum efnahagsmálum til margra ára sem hefur einkennst af óstöðugu gengi, mikilli verðbólgu, stjórnlausri gróðahyggju og duglausu eftirliti hins opinbera með fjármálastarfsemi í landinu."

Miðstjórnin krefst þess að ríkisstjórnin móti skýra stefnu með hvaða hætti verði komist út úr því ástandi sem er að skapast í landinu og reynt verði með öllum tiltækum ráðum að draga úr afleiðingum þess fyrir einstaklinga, íslensk heimili og fyrirtæki. Miðstjórnin segir að koma verði gjaldeyrismálum þjóðarinnar í þannig horf að fyrirtæki og einstaklingar geti átt eðlileg viðskipti með gjaldeyri og til landsins berist nauðsynlegar vörur. Mikilvægt er að í þessum málum verði unnið hratt því engan tíma má missa. Ef ekkert verður aðhafst blasir við að mikill hluti atvinnulífsins stöðvast með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Mikilvægt er að bregðast nú þegar við vaxandi atvinnuleysi með því að móta skýra atvinnustefnu sem byggir á nýtingu íslenskra náttúruauðlinda og þess auðs sem býr í vel menntaðri þjóð, að mati miðstjórnar Samiðnar.

,,Opna þarf leiðir fyrir atvinnulaust fólk svo það geti viðhaldið og aukið þekkingu sína og styrkt sig á vinnumarkaði. Jafnhliða þarf að tryggja því fjárhagslega afkomu m.a. með því að tryggja því rétt til atvinnuleysisbóta samhliða formlegu námi þar til réttur til námslána skapast."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×