Innlent

Tvennt dæmt fyrir aðild að TR-fjársvikum

Þrítugur karlmaður var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í átta mánaða fangelsi fyrir aðild sína að stórfelldu fjársvikamáli í Tryggingastofnun ríkisins. Þá var 52 ára kona dæmd í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir aðild sína að málinu.

Maðurinn hafði milligöngu um að taka við og dreifa um níu milljónum króna sem hann fékk inn á bankareikning sinn frá konu sem vann hjá Tryggingastofnun. Fyrir þetta fékk maðurinn um eina milljón króna í þóknun. Hann hafði áður fengið fimm refsidóma, meðal annars fyrir þjófnað

Þá var kona dæmd í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir aðild sína á málinu. Konunni var gefið að sök að hafa tekið á móti um sjö milljónum króna inn á reikning sinn og ráðstafað samkvæmt fyrirskipun frá sama starfsmanni TR sem skipulagði fjársvikin. Fékk konan um helming fjárins í sinn hlut. Hún játaði sök en hún er vinkona skipuleggjandans.

Konan var ekki á sakaskrá og segir í dómnum að hún hafi lagt sitt af mörkum til að upplýsa málið, ekki síst með greiðri játningu fyrir dómi. Var tekið tilli til þess við ákvörðun refsingar en einnig þess að hún hylmdi yfir umtalsverð fjársvik.

20 manns voru ákærðir eru í tengslum við fjársvikin sem talin eru nema um 76 milljónum króna en í dag féll fyrsti dómurinn. Fastlega má búast við því að þyngsti dómurinn muni falla í skaut 45 ára gamallar konu úr Reykjavík sem starfaði sem þjónustufulltrúi hjá stofnuninni og hefur játað að hafa skipulagt fjársvikin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×