Innlent

Fyrrverandi sveitarstjóri krafinn um 27 milljónir vegna fjárdráttar

Grímseyjarhreppur fer fram á að Brynjólfur Árnason, fyrrverandi sveitarstjóri hreppsins, greiði sér tæpar 27 milljónir króna vegna fjárdráttar í opinberu starfi. Þetta kom fram við þingfestingu á ákæru Ríkislögreglustjóra á hendur Brynjólfi við Héraðsdóm Norðurlands eystra í morgun.

Eins og Vísir greindi frá í gær er sveitarstjórinn fyrrverandi ákærður fyrir fjárdrátt í opinberu starfi á árunum 2005-2007. Grunur vaknaði um brot hans þegar hann var dæmdur í héraðsdómi í nóvember í fyrra fyrir að hafa stolið nærri 13 þúsund lítrum af olíu til húshitunar. Fyrir það hlaut hann þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Fljótlega eftir það var farið að skoða bókhald Grímseyjarhrepps og þá vaknaði grunur um stórfelld fjársvik Brynjólfs. Honum var sagt upp störfum sem sveitarstjóra og málið í framhaldi kært til lögreglu.

Ákæran á hendur Brynjólfi er í tólf liðum, ellefu snúa að fjárdrætti og einn að umboðssvikum. Snúast ákæruatriðin um ýmiss konar fjárdrátt, þó aðallega millifærslur á fjármunum frá reikningum Grímseyjarhrepps yfir á reikning Brynjólfs. Brynjólfur vildi við þingfestingu málsins í morgun ekki tjá sig um efni kærunnar en málinu verður framhaldið eftir viku.

Samkvæmt lögum liggur allt að sex ára fangelsi við meintum brotum Brynjólfs.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×