Innlent

Vöruskipti hagstæð annan mánuðinn í röð

Vöruskipti við útlönd í nýliðnum október voru hagstæð um nærri ellefu milljarða króna samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Þetta er annar mánuðurinn í röð sem vöruskiptin eru hagstæð en í september voru þau hagstæð um nærri átta milljarða. Það virðist því stefna í mikinn viðsnúning á síðasta þriðjungi ársins.

Miðað við bráðabirgðatölur Hagstofunnar fyrir október er hallinn á vöruskiptum það sem af er ári rúmlega 30 milljarðar króna en á sama tíma í fyrra var hallinn 83 milljarðar króna. Hagstofan vekur athygli á því að samkvæmt alþjóðlegum stöðlum er verðmæti inn- og útflutnings mælt þegar vörur fara yfir landamæri óháð því hvenær gjaldeyrisskil vegna þeirra fara fram, en verulegar tafir hafa orðið á þeim í október eins og kunnugt er.

Vísbendingar eru um aukið verðmæti útfluttra sjávarafurða og iðnaðarvara en innflutningur flestra liða er minni í október miðað við september 2008.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×