Lífið

Hundrað þúsund hafa horft á This is My Life

Rúmlega hundrað þúsund manns hafa horft á myndband við Evróvisjónframlag Íslands, This is My Life, á síðu slúðurkóngsins Perez Hilton. Þar situr það einnig í fjórða sæti yfir mest sendu fréttirnar.

„Ég hoppaði hæð mína í loft upp þegar ég sá að þetta var komið inn," segir Friðrik Ómar. Hann segir það hafa verið draumurinn að koma myndbandinu að á síðum á borð við þessa, en býst þó ekki við frægð og frama Eurobandsins vestanhafs í kjölfarið.

Eins og Vísir greindi frá á dögunum hefur Eurobandið sjálft lagt út í kostnað til að kynna lagið á erlendri grund. Myndbandið var því unnið eins ódýrt og hægt er, og segir Friðrik það einungis hafa kostað um milljón í framleiðslu. Sveitin má því líklega vel við una með athyglina sem það hefur fengið.

Þegar hundrað þúsund höfðu horft á myndbandið var enn mið nótt á heimahögum Perez. Fleiri milljónir manna heimsækja síðuna dag hvern, og því ekki hæpið að sú tala hækki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.