Lífið

Sumargleðin endurvakin

Steinþór Helgi Arnsteinsson skrifar
Sumargleðin árið 1982.
Sumargleðin árið 1982.

„Mér finnst þetta stórskemmtilegt, því eins og í tónlist þá gengur skemmtanaiðnaðurinn líka í hringi. Þegar ungir menn ætla að hasla sér völl í þessum bransa þá er ágætt að fara í smiðju gömlu mannanna sem voru með sólskinsbros á vörum, hringinn í kringum landið í sextán ár," segir ofurskemmtarinn Hemmi Gunn um þá áætlun hljómsveita Kimi Records að ferðast í kringum landið og spila fyrir landsmenn undir yfirskriftinni Sumargleði Kimi Records.

Sumargleðin var upp á sitt besta á áttunda og sjöunda áratug síðustu aldar og innihélt stórstjörnur á borð við Ragga Bjarna, Ómar Ragnarsson, Þorgeir Ástvalds auk Hemma að sjálfsögðu.

Sumargleðin snýst um að skemmta fólkinu

Á blaðamannafundi í gær kom fram að þegar verið var að undirbúa ferð sveitanna í sumar kom ekkert annað í mál en að nefna sig eftir Sumargleðinni sálugu. Hin nýja Sumargleði ætlar meira að segja að ganga svo langt að klæðast Henson-göllum sem voru á sínum tíma eitt af vörumerkjum eldri Sumargleðinnar. „Við lögðum alltaf ofuráherslu á að þetta væri íslensk skemmtun og þess vegna vildum við líka styðja allt sem var íslenskt," útskýrir Hemmi.

Hemmi óttast ekki að uppátæki Kimi Records manna muni skaða ímynd Sumargleðinnar enda sé það fyrir löngu orðið að klassísku vörumerki. „Sumargleðin snérist alltaf um að skemmta fólkinu en ekki okkur sjálfum og þannig varð hún aldrei sjálfshátíð heldur þjóðhátíð sem gekk allar vikur sumarsins," segir Hemmi að lokum og ættu þessi orð að vera nýju Sumargleðinni gott veganesti út í sumarið.

Skemmtileg skírskotun í íslenska dægurmenningu

Hljómsveitirnar sem standa að Sumargleði Kimi Records eru Morðingjarnir, Reykjavík!, Borko og Benni Hemm Hemm. „Við erum kannski ekki með Bjössa Bollu og allar þessar kempur en það er gaman að nota nafn sem hefur skemmtilega skírskotun í íslenska dægurmenningu. Það voru margir snillingar í gömlu Sumargleðinni og við erum á einhvern hátt að heiðra þá með því að nota nafnið," segir Björn Kristjánsson, oft þekktur undir nafnið Borko.

Sumargleðin í ár lítur svona út:

14. júlí - Stokkseyri, Draugasetrið

15. júlí - Ísafjörður, Edinborg

16. júlí - Akureyri, Græni Hatturinn

17. júlí - Húsavík, Gamli Baukur

18. júlí - Seyðisfjörður, Leikhúsið

19. júlí - Höfn í Hornafirði, Pakkhúsið

23. júlí - Reykjavík, Nasa

Tónleikarnir eru sérstaklega styrktir af Innrásar-verkefni Kraums.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.