Innlent

Hætt við flugtak á Reykjavíkurflugvelli

Flugvél frá flugfélaginu Örnum þurfti að hætta við flugtak á síðustu stundu á Reykjavíkurflugvelli í gær. Atvikið var tilkynnt til flugmálastjórnar en ekki var hætta á ferðum að sögn flugstjóra vélarinnar.

Flugvélin, sem var með 18 farþega innanborðs, var á leið í áætlunarflugi til Hornafjarðar. Snemma í flugtaksbruninu grunaði áhöfn flugvélarinnar að ekki væri allt með felldu og var því ákveðið að hætta við flugtak. Vélin hélt aftur að flugskýlinu þar sem farþegum var hleypt frá borði. Flugvélin fór í stutta flugferð til að tryggja að allt væri í stakasta lagi og að því loknu hélt flugvélin með farþegana innanborðs til Hornafjarðar.

Ingimar Sigurðarson, flugrekstrarstjóri hjá flugfélaginu Örnum og flugstjóri vélarinnar, segir að engin hætta hafi verið á ferðum og að farþegunum hafi ekki verið brugðið. Atvikið var tilkynnt til Flugmálastjórnar sem í framhaldinu ákveður hvort þörf sé á frekari rannsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×