Innlent

Fæðingar á Grænlandi færri en fóstureyðingar

„Svo hefur verið töluverð fræðsla,“ segir Matthías Halldórsson, starfandi landlæknir.
„Svo hefur verið töluverð fræðsla,“ segir Matthías Halldórsson, starfandi landlæknir.

Fóstureyðingar á Grænlandi á árinu 2006 voru 1.030 miðað við hver 1.000 lifandi fædd börn. Þetta er langhæsta hlutfall fóstureyðinga á Norðurlöndunum að því er sjá má í Talnabrunni, fréttabréfi Landlæknis.

Hlutfallslega næstflestar fóstur­eyðingar á Norðurlöndunum voru í Svíþjóð þar sem þær voru 340 á hverjar eitt þúsund fæðingar samkvæmt Norræna heilbrigðistölfræðiráðinu. Hlutfallið á Íslandi er 205 fóstureyðingar. Það er fimmtungur hlutfallsins á Grænlandi. Hér á landi fæðast um 4.300 börn á ári en fóstureyðingar eru um 900 talsins.

Fóstureyðingar eru áberandi fæstar í Færeyjum en mjög fáar eru einnig í Finnlandi, eða aðeins 181 á hverja þúsund fædda. Matthías Halldórsson, starfandi landlæknir, segir að ekkert sé að marka tölurnar á Grænlandi því að svo margt sé öðruvísi í grænlenska samfélaginu en á hinum Norðurlöndunum. Því þurfi að taka Grænland út fyrir sviga og þá séu fóstureyðingarnar flestar í Svíþjóð.

Matthías segir að Íslendingar standi frekar vel hvað fóstureyðingar varðar, fóstureyðingar séu ekki of margar hér og hafi heldur farið fækkandi síðustu árin fremur en hitt. Það sé meðal annars vegna neyðargetnaðarvarnarinnar sem kom fyrir nokkrum árum. „Svo hefur verið töluverð fræðsla, læknanemar hafa til dæmis farið í framhaldsskólana, og þetta hefur lagst á sveif hvort með öðru,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×