Á bloggsíðu Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra kemur fram að á hundraðasta fundi ríkisstjórnarinnar mætti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, starfandi forsætisráðherra, með ljúffenga, heimabakaða tertu til hátíðabrigða.
„Ég átti nóg af eggjum og eitthvað af rjóma svo ég gerði þessa klassísku marengstertu með þeyttum rjóma, ávöxtum og súkkulaðikremi," svarar Þorgerður þegar Vísir spyr út í kökubaksturinn og hvort kona í hennar stöðu hafi tíma fyrir slíkt.
„Það er auðvelt að baka á kvöldin og skella rjómanum og hinu gumsinu á að morgni. Ef maður hefur gaman að hlutunum þá er alltaf tími."
Hvernig smakkaðist kakan? „Kakan var bara, að ég held, nokkuð góð og gekk hún fljótt út," svaraði Þorgerður Katrín að lokum.