Lífið

Harðsvíraður Helgi Björns í fylgd nektardansmeyja

Skuggalegur Helgi Björns  er vígalegur sem undirheimakóngur og súlustaðaeigandi í sjónvarpsþáttaröðinni Svartir Englar.
Fréttablaðið/Arnþór
Skuggalegur Helgi Björns er vígalegur sem undirheimakóngur og súlustaðaeigandi í sjónvarpsþáttaröðinni Svartir Englar. Fréttablaðið/Arnþór

„Já, það verður gaman að rifja upp gamla takta frá Sódómu Reykjavík. Þar var ég náttúrlega með mína undirheimastarfsemi í Hafnarfirði en hef nú fært út kvíarnar í höfuðborgina," segir Helgi Björnsson sem leikur undirheimakónginn Lárus eða Lalla í sjónvarpsþáttaröðinni Svartir englar.

Lárus heldur sig oftast á ónefndum súlustað í höfuðborginni og þykir fátt jafn skemmtilegt og að horfa á fáklæddar stúlkur skaka sér við súluna. Tökur á Svörtum englum hófust í fyrradag en þáttaröðin er byggð á bókum Ævars Arnar Jósepssonar og verður sýnd á RÚV.

Helgi er ekki ókunnugur mönnum sem hafa lent utanvega í samfélaginu en hann fór á kostum sem Moli í áðurnefndri Sódómu. Þá eins og nú var Óskar Jónasson við stjórnvölinn og Helgi hlakkaði mikið til að endurnýja kynnin við leikstjórann. Reyndar er fleira Sódómu-fólk sem kemur að gerð Svartra engla því Sigurjón Kjartansson skrifar handritið ásamt Margréti Örnólfsdóttur. Sigurjón lék einmitt einnig stórt hlutverk í Sódómu þar sem rokkhundarnir í HAM fóru á kostum.

„Þetta er náttúrlega fyrst og fremst manneskja sem er að reyna komast áfram í erfiðri veröld og til þess þarf hann að nota margvísleg meðul," segir Helgi sem var nýkominn til Íslands frá Þýskalandi þegar Fréttablaðið náði tali af honum. Leikarinn og leikhúseigandinn tekur jafnframt fram að það sé yfirleitt skemmtilegra fyrir sig að fást við persónur sem eru ekki með geislabauginn yfir höfðinu. „Þær eru oft litríkari og forvitnilegri en við meðaljónin, því miður," segir Helgi og hlær. Hann tekur þó ekki undir þær fullyrðingar að hann sé alltaf valinn í hlutverk óþokka í kvikmyndir og leikrit en getur sér til að ef svo er hafi hið vestfirska og harðgerða útlit eflaust eitthvað með það að gera.

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.