Innlent

Ingibjörg vill lögbann á Club 101

„Við erum ekkert hræddir við Ingibjörgu Pálma," segir Anton Þórarinsson einn eigenda skemmtistaðarins Club 101. Lögmenn 101 hótels hafa sent aðstandendum staðarins bréf þar sem farið er fram á að þeir breyti merki sínu. Það segir Anton ekki koma til greina.

Í bréfinu er skorað á Club 101 að verða við kröfunum innan fjórtán daga, 101 Hótel áskilji sér hinsvegar rétt til þess að krefjast lögbanns verði ekki orðið við þeim.

Ingbjörg Pálmadóttir á fjölda skráðra vörumerkja tengdu hótelinu þar sem 101 kemur fyrir. Þá eru hún og Jón Ásgeir eiginmaður hennar eigendur einkaþotu með merki hótelsins á auk glæsilegrar snekkju sem ætluð var til útleigu, og ber einmitt nafnið One-o-One.

„Í sem skemmstu máli þá verður ekki orðið við þessum kröfum," Sveinn Andri Sveinsson lögmaður Club 101. Hann segir kröfuna byggða á því að með nafni og myndmerki Club 101 sé brotið gegn vörumerkjarétti 101 hótelsins.

Sveinn telur svo ekki vera. Fjöldi fyrirtækja beri nöfn sem innifeli 101. „Ef einhver á rétt á 101 þá er það Reykjavíkurborg með skiptingu borgarinnar í póstnúmer. Eða bara pósturinn," segir Sveinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×