Lífið

Popparar moka upp laxinum

Gunnar Lárus Hjálmarsson skrifar
Nýjasta liðsskipan Pops Birgir Hrafnsson (annar frá vinstri) og Óttar Felix (lengst til hægri) hafa verið að moka upp laxi í sumar. Aðrir í bandinu eru Jón Ólafsson, Eiríkur Hauksson og Sigurgeir Sigmundsson.
Nýjasta liðsskipan Pops Birgir Hrafnsson (annar frá vinstri) og Óttar Felix (lengst til hægri) hafa verið að moka upp laxi í sumar. Aðrir í bandinu eru Jón Ólafsson, Eiríkur Hauksson og Sigurgeir Sigmundsson.
„Það hefur verið óvenju gjöfult í laxveiðinni í ár,“ segir Óttar Felix Hauksson. Hann og Birgir Hrafnsson félagi hans í Pops hafa hreinlega verið að moka laxinum upp í sumar. „Við áttum besta holl sumarsins í Grímsá í Borgarfirði. Fengum 188 laxa í þriggja daga holli. Í gær og á mánudaginn vorum við í Eystri-Rangá og fengum yfir hundrað,“ segir Óttar.

Oft stækkar hópurinn og í síðustu viku voru Óttar og Birgir í sjö manna hópi sem tók þriggja daga holl í Laxá í Aðaldal. Páll Magnússon sjónvarpsstjóri og Björgvin Halldórsson voru meðal þeirra sem bættust við en Jafet Ólafsson fékk stærsta laxinn í ferðinni, 22ja punda hæng.

„Ég setti reyndar í mun stærri fisk,“ fullyrðir Óttar. „Hann kom á í Höfðahyl en þar fékk einmitt Jakob Hafstein úr MA-kvartettinum stærsta flugufisk Íslandssögunnar, 36 punda lax, árið 1942. Það er skjöldur á stein þarna til minningar um afrek hans og ég var farinn að sjá fyrir mér að nú þyrfti að búa til nýjan skjöld. Því miður tókst fiskinum að rífa sig lausan.“

Nú þegar laxveiðitímabilinu fer að ljúka segir Óttar að Pops muni vakna til lífsins. „Við spilum eitthvað í haust og vetur. Við þurfum bara að heyra í Eika Hauks til að sjá hvenær hann er laus.“

Pops spilaði í Norræna húsinu á dögunum, sem Óttar segir hafa verið nýbreytni í. „Fyrst lásu Sigurður Pálsson og Þórarinn Eldjárn upp í klukkutíma og svo komum við og rokkuðum. Þetta er blanda sem menn ættu að huga betur að.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.