Innlent

Hugsanlegt að Icesave-deila hafi áhrif á niðurstöðu IMF

Hugsanlegt er að deilan við Breta og Hollendinga um Icesave-reikninga Landsbankans hafi áhrif á niðurstöðu stjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um lán til Íslendinga. Þetta sagði Árni Mathiesen fjármálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri - grænna, vakti athygli á því að stjórnvöld vildu ekki greina frá skilmálum samkomulags við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Hafðar hefðu verið uppi getgátur um að í samkomulaginu fælist að gengið yrði frá samkomulagi við Breta og Hollendinga vegna Icesave en því hefðu stjórnvöld vísað á bug.

Árni Þór vísaði hins vegar til fundar þingmannanefndar EFTA í Brussel fyrr í vikunni þar sem fram hefði komið að sum aðildarríki nefndarinnar vildu tengja lán sjóðsins við samkomulag við Breta. Þá hefði Barroso, framkvæmdastjóri ESB, sagt Geir H. Haarde forsætisráðherra að Íslendingar gætu fengið lán úr neyðarsjóði ESB gegn því að ganga til samninga við Breta og Hollendinga. Þetta væri að mati Árni fjárkúgun enda væri verið að selja Bretum og Hollendingum sjálfdæmi í málinu.

Spurði hann ráðherra hver staðan væri í þessum málum og hvers vegna því hefði verið haldið fram að engin tengsl væru á milli samkomulags um lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og lausn deilnanna við Breta og Hollendinga.

Ekkert í samkomulagi við IMF um lausn deilumála

Árni Mathiesen fjármálaráðherra sagði að í samkomulagi sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um lán væru engin skilyrði um lasun í einstökum deilumálum. Því væri hins vegar þannig farið að Bretar og Hollendingar ættu sæti í stjórn sjóðsins og hún ætti erftir að fjalla um samkomulag sendinefndarinnar og Íslendinga. Það mætti því segja að þjóðirnar gætu haft tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri sem gæti haft áhrif á hver þeirra afstaða yrði í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Mögulegt væri að þetta hefði áhrif á niðurstöðu sjóðsins.

Árni Þór Sigurðsson sagði að best væri að stjórnvöld afléttu leynd af samkomulaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Hann benti á að fjármálaráðherra hefði ekki svarað því hvað hefði verið rætt á fundi fjármálaráðherra EES-ríkjanna fyrr í vikunni en á heimasíðu ráðsins hefði komið fram að rætt hefði verið um stöðu Íslands lengi.

Fjármálaráðherra sagðist skilja að þingmaðurinn vildi upplýsingar um þetta en hins vegar væri það bara þannig að það væri trúnaður á ákveðnum þáttum, þar á meðal samkomulaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og einstökum fundum. Hann teldi það ekki farsælli lausn til framdráttar ef Íslendingar myndu einhliða aflétta trúnaði af einstökum málum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×