Innlent

Hafa staðið sig vel í halda yfirgefnum húsum lokuðum

MYND/Valli

Eigendur auðra bygginga í miðborg Reykjavíkur hafa staðið sig vel í að halda þeim lokuðum frá því að slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hóf sérstakt átak í að fylgjast með þeim. Þetta kemur fram í skýrslu slökkviliðsins sem lögð var fram í borgarráði í dag.

Ráðist var í átakið í vor, meðal annars eftir tíða elda í yfirgefnum byggingum í miðborginni. Kom í ljós við úttekt slökkviliðsins að flestar hinna yfirgefnu byggina stóðu opnar öllum þannig að bæði útigangsmenn, fíkniefnaneytendur og aðrir sóttu inn í þær.

Skoðanir á húsunum fóru fram í apríl og voru send út bréf til eigenda og umráðamanna bygginga þar sem ástand var með þeim hætti að það gæti skapað bráða hættu ef eldur kæmi upp. Viðbrögð eigendanna voru nær alltaf góð að sögn slökkviliðs og voru byggingar gerðar mannheldar og rusl fjarlægt af lóðum. Einnig hefur kvörtunum og/eða ábendingum fækkað verulega frá því í apríl.

Slökkviliðið mun áfram fara í reglulegar skoðunarferðir til þess að fylgjast með ástandi húsanna en telur að þessi málaflokkur sé í réttum farvegi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×