Innlent

Aðildarviðræður gætu tekið innan við hálft ár

Eiríkur Tómasson.
Eiríkur Tómasson.

Eiríkur Tómasson, lagaprófessor við Háskóla Íslands, telur að aðildarviðræður við Evrópusambandið gætu tekið nokkra mánuði. Þetta kom fram á hádegisfundi Framsóknarflokksins um þjóðaratkvæðagreiðslur og stjórnarskrána en þar var Eiríkur með framsögu.

Siv Friðleifsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sagði vaxandi þrýsting í samfélaginu vera á Evópusambandsaðild. Hún vitnaði til orða Diana Wallis sem situr á Evrópuþingu fyrir hönd Bretlands sem hefur sagt að aðildarviðræður Íslands gætu gengið afar hratt fyrir sig. Í framhaldinu spurði hún Eirík af því hversu langan tíma hann teldi að ferlið gæti tekið.

,,Það ætti ekki að taka langan tíma. Í fyrsta lagi þarf ekki neina stjórnarskrárbreytingu til að fara í aðildarviðræður," sagði Eiríkur sem taldi jafnframt að umsóknarferlið ætti að nást auðveldlega innan sex mánuða.

Áður en Ísland gerðist aðili að Evópusamabandinu þarf að breyta stjórnarskránni og slíka tilögu er hægt að leggja til samhliða aðildarviðræðum en að því loknu þarf að rjúfa þing og efna til kosninga. Jafnframt því verði að setja lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Eiríkur sagði ekkert því til fyrirstöðu að fram fari vetrarkosningar. Það hafi seinast verið gert árið 1979 og þær kosningar hafi gengið vel.

Ákvæði um framsal á valdi

Um framsal á ríkisvaldi sagði Eiríkur að víðast hver hafi þjóðþing farið þá að leið að hafa almennt ákvæði í stjórnarskrám sínum að hægt sé að framselja vald til stofnana á borð við Evrópusambandið í stað þess að hafa sér ákvæði varðandi eina tiltekna stofnun.

Eiríkur nefndi sem dæmi að þrír fjórðu þingmanna norska Stórþingsins geta framselt vald til alþjóðlegra stofnana. Ekki sé nauðsynlegt að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla en aftur á móti hafi Norðmenn tvívegis farið þá leið í tengslum við aðild að Evrópusambandinu. Í dönsku stjórnarskránni er svipað ákvæði.

Ríkisstjórnarflokkarnir ósammála

Eiríkur sagði lítið hafa áunnist í að breyta stjórnarskránni til nútímalegri horfs.

Í umræðum á fundinum tók Jón Kristjánsson, fyrrum ráðherra og formaður stjórnarskrárnefndar, til máls. Hann sagði nefndina ekki hafa komið sér saman um neitt á seinasta kjörtímabili og að vinna hennar hafi strandað á núverandi stjórnarflokkum sem hafi ekki getið komið sér saman um atriði varðandi embætti forseta Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×