Lífið

Björk styður Tíbeta á tónleikum í Sjanghæ

Björk Guðmundsdóttir.
Björk Guðmundsdóttir.

Björk Guðmundsdóttir hvatti til sjálfstæðis Tíbets á tónleikum sem hún hélt í Sjanghæ í Kína á sunnudaginn. Í lokalagi tónleikanna, "Declare independence", hrópaði hún: „Tíbet, Tíbet", en lagið er ákall um að fólk eigi að krefjast sjálfstæðis. Ekki hefur heyrst af viðbrögðum Kínverskra stjórnvalda en sjálfstæðisbarátta Tíbets er viðkvæmt mál þessa dagana, ekki síst í ljósi þess að styttist í Ólympíuleikana í Beijing.

Búist er við því að Kínverjar muni bregðast ókvæða við en stjórnvöld þar í landi hafa vísað útlendingum úr landi sem tekið hafa málstað Tíbeta. Landið lýtur stjórn Kínverja og hefur andlegur leiðtogi Tíbets, Dalai Lama verið í útlegð á Indlandi frá árinu 1959.

Í síðustu viku hélt Björk tónleika í Tókýó þar sem hún óskaði íbúm Kosovo til hamingju með sjálfstæði héraðsins frá Serbíu. Þetta reitti Serba til reiði og hefur tónleikum sem hún ætlaði að halda í Serbíu í sumar verið aflýst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×