Innlent

Útvarpsstjóri setur heftiplástur fyrir munn landsbyggðarinnar

Útvarpshúsið í Efstaleiti.
Útvarpshúsið í Efstaleiti. MYND/GVA

Svæðisútvarp landshlutanna er gríðarlega mikilvægur hlekkur í miðlun frétta, menningarviðburða og annarra samskipta fyrir landsbyggðina, að mati Ásbjörns Björgvinssonar framkvæmdastjóra Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi. ,,Það má segja að þessar svæðisbundnu útsendingar séu samskiptavefur okkar og sýnileiki landsbyggðarinnar verður ekki mikill detti þær alfarið út."

Markaðsskrifstofan hvatti í gær alla ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi og íbúa Norðurlands að senda áskorun á forsvarsmenn Ríkisútvarpsins. Í áskoruninni er ákvörðun Páls Magnússonar, útvarpsstjóra, að leggja niður svæðisútvarp landshlutanna harðlega gagnrýnd.

,,Að leggja svæðisútvarpið niður er því gróf aðför að íbúum landsbyggðarinar og klár skerðing á þjónustu við fyrirtæki á landsbyggðinni. Ef áform útvarpsstjóra ná fram að ganga er í raun verið að setja heftiplástur yfir munn landsbyggðarinnar, skerða lífskjör, tækifæri og sjálfstæði okkar," segir í áskoruninni.

Fyrirtæki á landsbyggðinni auglýsa mikið í svæðisútvarpinu og skapa tekjur fyrir Ríkisútvarpið sem Ásbjörn telur að vafalaust muni minnka eða detta út og færast á svæðisbundna prentmiðla.

Aðspurður segir Ásbjörn að viðbrögðin við hvattningu markaðsskrifstofunnar hafi verið mikil og góð. ,,Fyrst og fremst þakklæti fyrir framtakið því það eru allir sammála um að ákvörðun útvarpsstjóra er röng."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×