Íslenski boltinn

Seinheppnir Skagamenn nánast fallnir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þróttarar fagna marki nú fyrr í sumar.
Þróttarar fagna marki nú fyrr í sumar. Mynd/Valli

Það er fátt sem getur bjargað ÍA frá falli eftir að liðið tapaði fyrir Þrótti í lokaleik 19. umferðar Landsbankadeildar karla í dag, 4-1.

Fylgst var náið með gang leiksins á Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins og má lesa nánar um leikinn þar.

Þróttarar byrjuðu vel í leiknum og komust í 2-0 á fyrstu 25 mínútunum. Fyrst Sigmundur Kristjánsson eftir laglega skyndisókn Þróttara og svo Dennis Danry úr umdeildri vítaspyrnu sem Kristinn Jakobsson dómari dæmdi.

Svo kom tíu mínútna leikkafli sem lék Skagamenn afar grimmt. Fyrst sleppti Kristinn víti þegar að Michael Jackson, varnarmaður Þróttar, handlék knöttinn greinilega innan teigs og aðeins tveimur mínútum síðar skoraði ÍA sjálfsmark.

Þetta mark kom á 65. mínútu og aðeins fjórum mínútum síðar sleppti Kristinn aftur augljósri vítaspyrnu en í þetta sinn var það Kristján Ómar Björnsson sem fékk boltann í höndina þegar hann virtist á leiðinni inn í markið.

Það var svo fyrrum Skagamaðurinn, Hjörtur Hjartarson, sem innsiglaði sigur Þróttar. Hann fékk sendingu inn fyrir vörn ÍA, lék á Bjarka markvörð og skaut að marki. Helgi Pétur Magnússon náði að komast í veg fyrir skotið en Hjörtur fékk boltann aftur. Hann skaut að marki og boltinn fór af Heimi sem stóð á marklínunni og í markið.

Þróttarar eru nú komnir í 22 stig, rétt eins og Fjölnir, og eru þremur stigum á undan Fylki og sex á undan HK. Þeir eru því í ágætum málum en ekki lausir við fallhættuna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×