Íslenski boltinn

Stigin telja í bleytunni í Keflavík

Spennan er farin að magnast í Keflavík, enda er titillinn í augsýn
Spennan er farin að magnast í Keflavík, enda er titillinn í augsýn Mynd/Eiríkur

"Núna er bara að einblína á þau markmið sem við höfum sett okkur og stilla spennustigið," sagði Kristján Guðmundsson þjálfari Keflavíkur í samtali við Vísi.

Keflvíkingar taka á móti Breiðablik á heimavelli sínum klukkan 17:15 í dag og sigur heimamanna myndi þýða að suðurnesjaliðið væri komið í afar vænlega stöðu í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn.

"Það eina sem við getum haft áhrif á eru okkar gjörðir og hvernig við förum í bæði æfingar og leiki. Andrúmsloftið í herbúðum liðsins hefur aðeins breyst að undanförnu, því er ekki að neita, en við breytum ekki út af okkar áætlunum," sagði Kristján þegar hann var spurður út í spennustigið í herbúðum Keflvíkinga.

Liðið getur náð átta stiga forskoti á FH með sigri í kvöld, en Hafnfirðingarnir eiga tvo leiki til góða - annan þeirra gegn Fram í kvöld.

Ástandið á vellinum í Keflavík hefur ekki verið sérlega gott undanfarið og Kristján á von á því að bleytan á vellinum muni setja liðunum nokkuð strik í reikninginn.

"Völlurinn er mjög blautur og það er spurning hvort verður ekki erfitt að gera við hann. Þetta gæti átt eftir að hafa áhrif á leik liðanna, en þetta verður bara barátta í pollunum í kvöld má segja að við eigum það inni eftir fyrri leikinn í Kópavogi. Hann endaði með 2-2 jafntefli og var að mínu mati mjög vel spilaður og skemmtilegur. Nú telur fyrst og fremst að ná í stigin sem eru í boði," sagði Kristján.

Fylgst verður með gangi mála í leikjum kvöldsins á Boltavaktinni hér á Vísi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×