Innlent

Þorgerður Katrín: Við erum ekki gjaldþrota

Jón Hákon Halldórsson skrifar

„Við erum ekki gjaldþrota, en við eigum minna heldur en áður og það er bara eins og lífið er," segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Hún og Kristján Arason eiginmaður hennar, áttu hlut í Kaupþingi í gegnum félag þeirra, 7 hægri ehf. Þorgerður segir að langt sé síðan að til þessa félags hafi verið stofnað.

Þorgerður segir að Kristján hafi haft mikla trú á Kaupþingi í febrúar „Og virði fyrirtækisins óx eftir það þannig að við ákváðum að setja okkar sparnað í þetta félag. Við trúðum því að íslenskt efnahagslíf myndi standa sig, við trúðum því að bankakerfið væri sterkt," segir Þorgerður um þær ákvarðanir sem þau hjónin tóku. „En við hjónin erum búin að tapa miklum peningum eins og margir aðrir Íslendingar," bætir Þorgerður við.

Grunur leikur á að skuldir æðstu stjórnenda Kaupþings vegna hlutabréfakaupa í bankanum hafi verið afskrifaðar skömmu fyrir þjóðnýtingu bankans. Haft er eftir Kristjáni í DV í dag að lán hans vegna kaupa á bréfum í bankanum hafi ekki verið strokuð út og Þorgerður segir að málið setji sig ekki í óþægilega stöðu. „En það sem skiptir máli er að allt komi upp á borðið því að það er gersamlega óþolandi ef að ég eða minn maður erum sett í einhverja óþægilega stöðu," segir Þorgerður. Hún segir að allir verði að tala hreinskilnislega og það hafi enginn neitt að fela í þessu máli.

Þorgerður segir að ekki sé búið að gjaldfella skuldirnar vegna kaupa á hlutabréfunum í bankanum, þannig að ekki sé ljóst hvort að 7 - hægri taki skuldirnar eða hvort þau hjónin geri það persónulega.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×