Innlent

Ráðherrar funduðu með fulltrúum lífeyrissjóðanna

Fulltrúar lífeyrissjóðanna áttu fyrir hádegi fund með Geir H. Haarde forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur félagsamálaráðherra og Össuri Skarphéðinssyni iðnaðarráðherra.

Á þeim fundi lögðu ráðherrarnir fyrir fulltrúa lífeyrissjóðanna hvort þeir væru tilbúnir að færa hluta af erlendum fjárfestingum sjóðanna yfir í íslenskar krónur.

Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, segir ekki útilokað að lífeyrissjóðir yrðu með, lægju fyrir heildstæðar áætlanir, til lengri og skemmri tíma.

,,Það má vel vera að hægt yrði að sannfæra lífeyrissjóðina um þátttöku í aðgerðum. En við verðum að hafa í huga að hér er um lífeyrissparnað fólksins í landinu að ræða," segir Gylfi.

Eignir lífeyrissjóðanna erlendis eru um 500 milljarðar króna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×