Innlent

Hafnarfjarðarbær semur einnig við Greenstone

Lúðvík Geirsson er bæjarstjóri í Hafnarfirði.
Lúðvík Geirsson er bæjarstjóri í Hafnarfirði. MYND/E.Ól

Hafnarfjarðarbær hefur bæst í hóp sveitarfélaga í landinu og ritað undir viljayfirlýsingu við Greenstone ehf. um byggingu allt að 50.000 fermetra gagnavers á lóð sveitarfélagsins.

Samkvæmt viljayfirlýsingunni mun Hafnarfjarðarbær leggja til lóð undir gagnaver og Greenstone mun sjá um kynningu á möguleikum sveitarfélagsins í þessu efni, hönnun og væntanlega byggingu gagnavers.

Fram kemur í tilkynningu Hafnarfjarðarbæjar að Greenstone hafi þegar ritað undir viljayfirlýsingu við Landsvirkjun þess efnis að orkufyrirtækið útvegi Greenstone a.m.k. 50 megavött af orku. Bent er á að verið sé að leggja nýjan ljósleiðara frá Íslandi til Evrópu og þá er sögð þörf á nýjum ljósleiðara til Bandaríkjanna beint frá Íslandi.

„Slíkt mun auka á möguleika á að alþjóðleg fyrirtæki sjái sér fært að staðsetja gagnver sín á Íslandi og nýta þannig vistvæna orku landsins til að kæla og keyra mengunarlausan tæknibúnað gagnavera," segir í tilkynningunni.

Þar kemur einnig fram að allt að 20 bein störf geti skapast vegna þessa og allt að 20 óbein störf. Greenstone hefur skrifað undir sams konar viljayfirlýsingu við Fjallabyggð, Dalvíkurbyggð og Sveitarfélagið Ölfus, Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Fljótsdalshérað svo einhver sveitarfélög séu nefnd.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×