Innlent

Tíu prósent óku of hratt á vinnusvæði á Reykjanesbraut

Tíu prósent ökumanna sem óku um framkvæmdasvæði á Reykjanesbraut við Arnarnesveg á einni klukkustund óku of hratt samkvæmt mælingu lögreglunnar.

Fram kemur í frétt lögreglunnar að alls hafi um ellefu hundruð ökumenn ekið eftir veginum í suðurátt á einni klukkustund eftir hádegi á föstudag. 115 þeirra óku of hratt og var meðalhraði hinna brotlegu tæplega 63 kílómetrar á klukkustund en þarna er nú leyfður 50 km hámarkshraði sökum framkvæmdanna. Sjö óku á 70 km hraða eða meira en sá sem hraðast ók mældist á 74.

Deginum áður var lögreglan með eftirlit á nákvæmlega sama stað og þá var brotahlutfallið 29 prósent og meðalhraði hinna brotlegu 65 kílómetrar á klukkustund. Þá voru hins vegar báðar akreinar til suðurs opnar fyrir umferð en í síðara skiptið ekki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×