Innlent

Litlar verðbreytingar á fíkniefnum - aukin neysla vegna kreppu

Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi.
Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi.

Verð á fíkniefnum hefur haldist stöðugt síðastliðna þrjá mánuði, samkvæmt tölum sem birtar eru á vef SÁÁ. SÁÁ segir að ætla megi að fyrstu áhrif væntanlegrar kreppu verði aukin neysla og fallhætt hjá þeim sem hafi verið í meðferð.

Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, segist hafa orðið var við aukið álag þar. „Þeir sem að einkum eru að fara illa út úr þessu, að okkur sýnist, eru karlmenn á aldrinum 40 - 60 ára," segir Þórarinn. Hann segir að um sé að rræða bæði nýja skjólstæðinga og karlmenn sem hafi verið á Vogi áður. Þórarinn segist telja að rekja megi aukninguna beint til efnahagsástandsins og umræðunnar í samfélaginu. „Ég held að það fari nú ekki hjá því að þetta hefur verið svolítil streita. Og það er vel þekkt að streita er hluti af fallinu," segir Þórarinn. Þórarinn segir að SÁÁ sé ekki nægilega vel búið undir kreppuna. Samtökin hafi verið í erfiðleikum áður vegna þess að ekki hafi fengist fjárveitingar til göngudeildarstarfs. Samtökin séu búin með alla varasjóði sína.

Á vef SÁÁ segir að þegar frá líði megi ætla að í kreppu muni eftirspurn eftir fíkniefnum minnka hér innanlands vegna minni fjárráða og færri farandverkamanna. Sú þróun ætti að draga verðið niður. SÁÁ býst því við að eftirspurnin fari minnkandi þegar fram líði stundir og verðið haldist óbreytt enn um stund.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×