Erlent

Downing-stræti umsetið meindýrum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Meindýraplága herjar á breska þingið, Downing-stræti og fleiri stjórnarbyggingar í Lundúnum.

Nú mætti ætla að hér fylgdi á eftir rammpólitískur pistill um óstjórn og spillingu breskra ráðamanna en sú er þó ekki raunin. Hitt er nær sanni að húsakynni æðstu stjórnenda heimsveldisins breska eru morandi í rottum, músum, flóm og jafnvel hefur borið á refum þar innandyra, enn án þess að skírskotað sé til embættismanna.

Breska blaðið Telegraph greinir frá því að upphæð sem svarar til á þrettándu milljón íslenskra króna hafi á síðasta ári verið varið til útrýmingar slíkra aðskotadýra úr húsakynnunum og eru þar auk þess sem áður var greint taldar upp kanínur, dúfur og jafnvel mávar.

Algjört met á utanríkisráðuneytið, sem 109 sinnum þurfti að fá meindýraeyði í heimsókn, en íbúar að Downing-stræti 10 hafa heldur ekki átt sjö dagana sæla vegna kanínu- og refaplágu sem steðjar að byggingunni.

Vandræðalegust þykir þó sú staðreynd að það embætti þar sem mýs hafa oftast sést á förnum vegi og óþekktar flugur og teppaflær þykja nánast daglegt brauð - er breska heilbrigðisráðuneytið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×