Erlent

Cheney og Gonzales ákærðir vegna misþyrminga í fangelsum

MYND/AP

Kviðdómur í Willacy-sýslu í suðurhluta Texas hefur gefið út ákæru á hendur Dick Cheney, varaforseta landsins, og Alberto Gonzales, fyrrverandi dómsmálaráðherra, vegna misþyrminga sem fangar sæta í einkareknum fangelsum.

Í ákærunni er vísað til tengsla Cheney við fyrirtæki sem reki fangelsi í sýslunni og er hann sakaður um hagsmunaárekstra vegna þessa. Er Cheney ákærður fyrir að hagnast á því að fólk sé svipt frelsinu og Gonzales fyrir að misnota aðstöðu sína sem dómsmálaráðherra til að stöðva rannsóknir á ofbeldi í fangelsum í sýslunni.

Ekki er búið að þingfesta ákæruna fyrir dómi í sýslunni og þá mun skrifstofu varaforsetans ekki hafa borist ákæran. Lögmaður Gonzales sagði hins vegar ákæruna bull og að um væri að ræða misnoktun á dómskerfinu.

Ákæran er gefin út í kjölfar þess að fangi lést í fangelsi í Willacy-sýslu árið 2001 eftir að samfangar hans höfðu lamið hann. Fyrirtækið sem rak fangelsið, GEO, var ákært vegna málsins og var það dæmt til að greiða fjölskyldu fangans himinháar bætur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×