Fótbolti

Gæti sett markvörð í sóknina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fatih Terim, landsliðsþjálfari Tyrkja.
Fatih Terim, landsliðsþjálfari Tyrkja. Nordic Photos / AFP
Fatih Terim, landsliðsþjálfari Tyrkja, íhugar nú að nota markvörð í annað hvort vörn eða sókn þar sem níu menn geta ekki spilað með liðinu í undanúrslitunum gegn Þýskalandi vegna meiðsla eða leikbanns.

Terim sagði að vel gæti komið til greina að Tolgan Zengin, þriðji markvörðurinn í leikmannahópi Tyrkja, yrði settur inn sem varamaður í leiknum gegn Þjóðverjum.

„Hann gæti komið inn á sem varnar- eða sóknarmaður undir lok leiksins," sagði Terim. „Við getum ekki leyft okkur þann munað að leikmenn geti valið sér hvar þeir spila á vellinum."

Sex leikmenn í 23 manna leikmannahópi Tyrkja voru fjarverandi þegar að liðið vann Króatíu í fjórðungsúrslitum og nú hafa þrír bæst í hópinn. Þrír verða í banni og þá meiddist framherjinn Nihat í leiknum og verður ekki meira með á mótinu. Mehmet Aurelio verður hins vegar í hópnum á ný eftir að hann tók út leikbann gegn Króötum.

Knattspyrnusamband Evrópu hefur ítrekað að engu liði er heimilt að skipta út leikmönnum í sínum hópi eftir fyrsta leik sinn í keppninni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×