Innlent

Framkvæmdarstjóri í Glitni ekki jafn heppinn og Birna

Maður sem gegndi stöðu framkvæmdastjóra í Glitni var ekki jafn heppinn og Birna Einarsdóttir, bankastjóri bankans. Hann keypti hlutabréf í bankanum sama dag og Birna en þau kaup voru ekki ógild vegna tæknilegra mistaka. Fjölmiðlaráðgjafi segir að mál Birnu þurfi flýtimeðferð hjá fjármálaeftirlitinu því umræðan hafi skaðleg áhrif á bankann.

Þann 29. mars á síðasta ári barst Kauphöllinni tilkynning um að Birna Einarsdóttir, sem þá starfaði sem framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Glitnis, hefði keypt 7 milljón hluti í bankanum á genginu 26,4 eða fyrir 190 milljónir króna. Næstu 11 mánuðina hélt Birna að hún ætti hlutinn eða þar til hún mætti á hluthafafund þann 20. febrúar síðastliðinn, en þá var eignarhlutur Birnu hvergi á skrá. Kaupin gengu aldrei í gegn vegna tæknilegra mistaka og var Kauphöllinni ekki tilkynnt um að ekkert yrði af kaupunum. Í yfirlýsingu frá Birnu kom fram að ekki hafi verið vilji innan bankans til að standa við upphaflegan samning.

Tæknin kom þó ekki í veg fyrir að kaupin gengu í gegn að þessu sinni. Ekki var óskað eftir störfum umrædds framkvæmdastjóra í nýja Glitni. Hann starfar nú tímabundið hjá gamla Glitni í London þar sem gengið er frá málefnum þess banka. Hann staðfesti að kaupin hefðu gengið í gegn en vildi að öðru leiti ekki tjá sig um málið.

Birna óskaði eftir því að Fjármálaeftirlitið tæki sín viðskipti til skoðunar og hafa þegar verið send gögn frá bankanum vegna þessa. Jón Hákon Magnússon, fjölmiðlaráðgjafi, segir málið þurfa flýtimeðferð því umræðan hafi skaðleg áhrif á ímynd bankans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×