Innlent

Gengið lék greiðslukortanotendur í útlöndum grátt

MYND/Vilhelm

Gengi krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum sveiflaðist um allt að 50 prósent í síðustu viku, greiðslukortanotendum í útlöndum til mikillar armæðu. Þetta kemur fram á vef Neytendasamtakanna.

Þar segir að kortanotendurnir hafi séð á reikngum mun hærri úttektir en þeir gerðu ráð fyrir. Gengið hafi verið óeðlilega lágt 7. og 8. október en þessa daga fór dollarinn upp í allt að 166 krónur, pundið í nærri 300 krónur og danska krónan í 30 krónur samkvæmt gengisskráningu kortafyrirtækjanna.

Neytendasamtökin segjast hafa sent fyrirspurn til stjórnenda kreditkortafyrirtækja um það hvort þeir ætli að koma eitthvað til móts við þá viðskiptavini sem notuðu kortin dagana 7.-8. október hjá Visa og 7. október hjá Mastercard. Því miður hafi þeir ekki séð sér fært að breyta eða lækka þessar úttektir til samræmis við dagana á undan og eftir.

„Neytendasamtökin hvetja þó enn og aftur kortafyrirtækin og viðskiptabanka til að endurskoða þessa afstöðu. Kortanotendur voru í þeirri stöðu að þeir höfðu ekki upplýsingar um að gengið þessa daga myndi hækka úttektir þeirra um allt að helming. Þetta óeðlilega ástand bitnar á litlum hóp viðskiptavina og því treysta Neytendasamtökin því að bankar og kortafyrirtæki sjái sér hag í umreikna þessar úttektir í samræmi við gengið dagana fyrir og eftir," segir á vef Neytendasamtakanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×