Innlent

Rannsaka enn margra milljarða millifærslur frá Kaupþingi

Skilanefnd Kaupþings hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir að ekkert liggi fyrir um að fjármunum hafi verið með ólögmætum hætti ráðstafað úr sjóðum bankans eða að peningar hafi verið færðir til landa þar sem erfitt er að komast að því hver reikningseigandinn er, eins og gefið hafi verið til kynna í fréttum Stöðvar 2 og Vísis í gær. Enn sé verið að rannsaka starfsemi bankans.

Fréttastofa sagði frá því að hún hefði heimildir fyrir því að hundrað milljarðar hefðu verið millifærðir úr sjóðum Kaupþings inn á erlenda bankareikninga skömmu áður en bankinn var þjóðnýttur. Í yfirlýsingu skilanefndar bankans vegna fréttarinnar segir að Fjármálaeftirlitið hafi falið skilanefndinni að ráða óháðan sérfræðing til að kanna hvort vikið hafi verið frá innri reglum bankans, lögum og reglum um starfsemi fjármálafyrirtækja, lögum um verðbréfaviðskipti, almennum hegningarlögum svo og öðrum réttarheimildum sem varðað geti háttsemi einstaklinga og lögaðila sem athugunin beinist að.

Í samræmi við þessi tilmæli hafi skilanefndin strax ráðið óháðan sérfræðing til verksins og hann hafi haft óheftan og milliliðalausan aðgang að öllum gögnum bankans í tengslum við athugunina. Vinnan sé í fullum gangi og um um gríðarlegt magn gagna, upplýsinga og færslna sé að ræða á því tímabili sem sé til skoðunar. Á þessu stigi málsins sé ekki unnt að greina frá niðurstöðu athugunarinnar enda sé henni ekki lokið.

 

„Í tilefni af nefndum fréttaflutningi vill skilanefnd þó taka fram að ekkert liggur fyrir um að fjármunum hafi verið með ólögmætum hætti ráðstafað úr sjóðum bankans eða að peningar hafi verið færðir til landa þar sem erfitt er að komast að því hver reikningseigandinn er, eins og gefið var til kynna í fréttum ofangreindra fjölmiðla. Skilanefndin hyggst sjá til þess að athugun hins óháða sérfræðings verði lokið innan eðlilegs tíma eins og ráð var fyrir gert og í framhaldi af því kynna niðurstöður þeirrar athugunar fyrir Fjármálaeftirlitinu," segir í tilkynningunni.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×