Innlent

Telur líklegt að ríkisstjórnin hrökklist frá - Vill nýjar kosningar

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins.
Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, telur allt eins líklegt að ríkisstjórnin hrökklist frá völdum vegna ástandsins í efnahagsmálum. ,,Ég býst því að stjórnin hrökklist frá eða hún taki sig saman í andlitinu og móti sér einhverju stefnu til framtíðar."

Aðspurður hvort ríkisstjórninni sé stætt á að sitja áfram svarar Guðni: ,,Stjórninni er varla stætt að sitja áfram því það hefur ekkert gengið eftir sem hún hefur sagt. Forsætisráðherra talar eins og spámaður og engar spár hans rætast."

Guðna hugnast lítt fjárlagafrumvarpið sem kynnt var í dag. ,,Við sjáum ringulreiðuna í gegnum frumvarpið sem ríkir í landinu." Guðni spáir því að frumvarpið verði ekki að lögum í núverandi mynd og það eigi eftir að taka miklum breytingum í þinginu.

Guðni segir að Samfylkingin hafi gefist upp og mikið ráðaleysi einkenna Sjálfstæðisflokkinn. ,,Það eru ógnvænlegir tímar og ríkisstjórnin skrifar núll í hverju málinu á eftir öðru," segir Guðni og bætir við svo virðist sem að ríkisstjórnin hafi ekki neina stefnu í því sem hann nefnir efnahagsóveður.

,,Ég hvatti til þjóðstjórnar og þjóðarsáttar og samstöðu fyrir ári síðan. Það var hlegið af því þá en nú eru fleiri farnir að tala á þá vegu," segir Guðni sem vill ekki segja til um hvort að þjóðstjórn tæki við á næstunni. ,,Við Framsóknarmenn viljum sjá nýjar kosningar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×