Innlent

Útsvarstekjur borgarinnar 2,5 milljörðum minni en búist var við

Útsvarstekjur borgarinnar verða um 2,5 milljörðum króna minni í ár en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þetta kemur fram í bréfi borgarhagfræðings um forsendur fjárhagsáætlunar næsta árs sem lagt var fram á fundi borgarráðs í dag.

Þar segir að samkvæmt upphaflegum áætlunum hafi verið gert ráð fyrir um 39,6 milljörðum króna í útsvarstekjur en þær verði í staðinn 37,1 milljarður. Þá er gert ráð fyrir að útsvarstekjurnar minnki enn frekar á næsta ári og verði 36,7 milljarðar og minnki þannig um eitt prósent. Enn fremur er gert ráð fyrir að fasteignaskattar dragist saman um 150 milljónir á milli ára og verði 13,5 milljarðar.

Enn fremur kemur fram í bréfinu að tekjur af sölu byggingarréttar verði aðeins sjö prósent af því sem gert var ráð fyrir á þessu ári og sama sé að segja af gatnagerðargjöldum. Þá séu engin teikn um viðsnúning á fasteignamarkaði og reiknað með að tekjur af sölu byggingaréttar verði um 500 milljónir á næsta ári.

Þá gerir borgarhagfræðingur ráð fyrir að verða á íbúðarhúsnæðoi minnki um 5-10 prósent á næsta ári. Gangi það eftir sé útlit fyrir fjórðungsraunlækkun húsnæðisverðs á tveimur árum. Útlitið sé enn dekkra varðandi atvinnuhúsnæði en á þeim markaði sé margfalt framboð á við eftirspurn.

Um atvinnuhorfur segir borgarhagfræðingur að búast megi við því að atvinnuleysi verði 1,5 prósent á þessu ári en fjögur prósent á því næsta. Hins vegar er reiknað með að margir fari í nám og að launþegar sem missi atvinnu færi sig í önnur og verr borguð störf fremur en að verða atvinnulausir. Í þessu felist að starfandi fólki muni fækka til muna, eða um 3,5 prósent.

Þá segir borgarhagfræðingur að mikiæ óvissa sé um þróun gengis krónunnar. Gengisþróunin það sem af er mánuði hafi verið með miklum ólíkindum og miðað við stöðuna þegar vika var liðin af mánuðinum hafi gengisvísitalan hækkað um 75 prósent frá upphafi fyrsta árs. „Þessi þróun er út úr öllu korti og gengislækkunin langt umfram það sem samrýmist langtíma jafnvægi í hagkerfinu," segir í bréfinu.

Bent er á að alþjóðafjármálakerfið standi á brauðfótum og útlitið sé dökkt og ringulreið ríkjandi. Íslenskt bankakerfi og fjármálamarkaður séu við þrot og erfitt að ráða í þróun á næstunni. Við þessi skilyrði reynist afar erfitt að setja fram haldgóða spá um gengisþróun en þó sé gert ráð fyrir að gengisvísitala krónunnar verið 160 stig á næsta ári.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×