Lífið

Ekkert mál að baka 100 metra köku

Addý, Jón Rúnar, Almar og Ragnar gera allt klárt fyrir 100 metra kökuna í Hafnarfirði. MYND/Visir.
Addý, Jón Rúnar, Almar og Ragnar gera allt klárt fyrir 100 metra kökuna í Hafnarfirði. MYND/Visir.

Vísir hitti Jón Rúnar Arilíusson framkvæmdastjóra Kökulistar sem bakaði 100 metra afmælistertuna fyrir 100 ára afmæli Hafnarfjarðar og spurði hvernig til tókst.

„Hrikalega vel. Við erum svo ofboðslega hreykin öll. Fleiri hundruð manns eru búin að klappa á öxlina á okkur og þakka okkur fyrir frábæra köku. Við svífum um af gleði, alveg grínlaust."

1380 kílóa afmælistertan innihélt hvorki meira né minna en 380 kíló af hindberjum. MYND/Visir.

Hvernig gekk að baka svona stóra köku?

"Mjög vel. Þetta er bara spurning um skipulag. Ég hringdi í nokkra vini mína, rjómann í bakarastéttinni, og fékk þá í lið með mér. Ég þurfti ekkert að suða í neinum því verkefnið var spennandi og mjög skemmtilegt," svarar Jón Rúnar.

Lions klúbbarnir í Hafnarfirði sáu um að skera afmælistertuna. MYND/Visir.

„Lions klúbbarnir sáu um að skera kökuna fyrir gestina og bæjarstarfsmennirnir hér í Hafnarfirði eiga að fá fálkaorðuna fyrir að binda niður tjaldið og gera allt klárt."

„Þvílíkir heiðursmenn sem komu til hjálpar. Og þegar mestu vindkviðurnar komu áður en við settum kökuna upp þá opnaði einn íbúi í Strandgötunni gluggann og kastaði til okkar rúllu af 100 metra kaðli til að festa tjaldið fyrir ofan kökuna. Allir voru hjálpsamir. Þetta er Hafnarfjörður í hnotskurn," segir Jón Rúnar bakari að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.