Innlent

Vilja að dómari víki í máli Jóns

Jón Ólafsson og félagar við þingfestingu málsins í sumar.
Jón Ólafsson og félagar við þingfestingu málsins í sumar.

Til stóð að munnlegur málflutningur yrði í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag um frávísunarkröfu Jóns Ólafssonar athafnamanns og þriggja annarra á ákæru um skattalagabrot. Þinghaldið tók breytta stefnu þegar fyrri frávísunarkrafa var ekki til meðferðar heldur önnur og ný.

,,Það var gerð krafa í morgun að málinu yrði vísað frá eða dómari myndi víkja í málinu út af því að hann fór ekki að lögum," sagði Jón samtali við Vísi.

Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra, sendi dómaranum í málinu greinargerð á föstudaginn. Í framhaldinu kröfðust verjendur Jóns og þremmeninganna þess að málinu yrði vísað frá dómi eða að dómarinn myndi víkja sæti þar sem málflutningur ætti að vera munnlegur og greingargerðin væri því óleyfileg.

,,Dómarinn hafnaði báðum kröfunum," sagði Jón og bætti við: ,,Það er talið að dómarinn hafi ekki farið að lögum og að sjálfsögðu munu lögmenn mínir áfrýja málinu til Hæstaréttar."

Eins og fram hefur komið í fréttum gaf efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra út ákæru á hendur Jóni fyrr á árinu en honum er gefið að sök að hafa svikið um 360 milljónir króna undan skatti í tengslum við rekstur Norðurljósa og tengdra félaga.

Ákærurnar á hendur Jóni og þremenningunum voru þingfestar um miðjan júlí en frávísunarkrafa málsins er fyrst tekin fyrir nú vegna þess að deilt hefur verið um hvort bæði Ragnar Aðalsteinsson og Sigurður G. Guðjónsson megi verja Jón. Þær deilur fóru tvo hringi í réttarkerfinu og lyktaði með því að Hæstiréttur hafnaði þeirri kröfu Jóns.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×