Innlent

21 milljarður eftir af Símapeningunum

Rúmlega tuttugu milljarðar eru eftir af 67 milljörðum sem fengust fyrir sölu Landssímans árið 2005. Sérstök lög um ráðstöfun símapeninganna verða afnumin samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar og afgangnum deilt út á fjárlögum eftir ákvörðunum Alþingis hverju sinni.

Áætlað var að verja símapeningunum til þjóðþrifaverkefna á árunum 2007 til 2012. Þrjátíu og þrír milljarðar áttu að fara til greiðslu erlendra skulda og gerðu það og þá stóðu eftir 34 milljarðar af símapeningunum.

18 milljarðar voru merktir nýju Hátæknisjúkrahúsi og að meðtöldum framlögum í fjárlögum næsta árs hafa 1,7 milljarðar farið til undirbúnings hans. Fimmtán milljarðar áttu að fara til vegagerðar, þar munaði mest um 8 milljarða til Sundabrautar sem enn er varla komin á teikniborðið. En 3,6 milljarðar hafa skilað sér í önnur verkefni í vegagerð.

Þrír milljarðar hafa farið til byggingar varðskips og kaupa á nýrri flugvél fyrir Landhelgisgæsluna. Nýsköpunarsjóður hefur fengið 1,1 milljarð af 2,5 en mun væntanlega fá allt sitt framlag og 2,5 milljarðar til farsímavæðingar þjóðveganna og fleira sem hefur skilað sér. Búsetuúrræði fyrir geðfatlaða áttu að fá milljarð. Eftir því sem næst verður komist hafa um 850 milljónir skilað sér. Byggja átti fyrir milljarð yfir Árnastofnun, en því er nú slegið á frest.

Eftir standa því rúmir tuttugu og einn milljarður af símapeningunum, en þeir hafa verið ávaxtaðir í Seðlabankanum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×