Erlent

Ferðataska úr Titanic á uppboð til að greiða elliheimilisdvöl

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Millvina Dean, seinasti eftirlifandi Titanic-farþeginn.
Millvina Dean, seinasti eftirlifandi Titanic-farþeginn. MYND/AP

Síðasti farþegi ógæfufleysins Titanic sem enn dregur andann hefur nú neyðst til að setja ýmsa muni sem björguðust með henni úr greipum ægis á uppboð til að eiga fyrir reikningunum um næstu mánaðamót.

Þetta er Millvina Dean sem var aðeins tveggja mánaða gömul þegar hún var vafin inn í poka og þannig látin síga niður í björgunarbát af þilfari hins sökkvandi skips 14. apríl 1912. Hún varðveitir enn þá muni sem fjölskylda hennar náði að taka með sér frá borði, svo sem ferðatösku og nokkur fataplögg. Er því spáð að ferðataskan verði slegin á 3.000 pund, jafnvirði um 600.000 króna, á uppboði í Devizes á Vestur-Englandi um helgina.

Dean er nú 96 ára gömul og á í erfiðleikum með að greiða fyrir pláss á hjúkrunarheimili sem hún þarf að búa á eftir að hún mjaðmarbrotnaði fyrir tveimur árum. Dean segist ekki muna nokkurn skapaðan hlut eftir nóttinni örlagaríku enda vilji hún ekki muna þá atburði. Hjúkrunarheimilið sem hún dvelur á er reyndar við Southampton, heimahöfn Titanic og merkilegt nokk verða munirnir boðnir upp hjá Henry Aldridge and Son, uppboðshúsi sem sérhæfir sig í Titanic-munum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×