Innlent

Svarfdælar fresta áformum um að breyta sparisjóðnum í hlutafélag

Frá fiskideginum mikla á Dalvík.
Frá fiskideginum mikla á Dalvík.
Stjórn Sparisjóðs Svarfdæla hefur ákveðið að fresta öllum áformum um hlutafélagsvæðinu sjóðsins um óákveðinn tíma. Þetta er tilkynnt í bréfi til stofnfjáreigenda sjóðsins. Jafnframt er í bréfinu undirstrikað að áframhaldandi rekstur Sparisjóðs Svarfdæla í óbreyttri mynd er ekki í hættu, þrátt fyrir áföll að undanförnu í fjármálalífi landsins, að .því er fram kemur í tilkynningu frá sjóðnum.

„Í bréfi til stofnfjáreigenda segir að sú lækkun sem hafi orðið á gegni hlutabréfa í eigu sjóðsins hafi að mestu verið komin fram á fyrri helmingi ársins. Áföllin sem orðið hafi í viðskiptabönkunum undanfarna daga hafi ekki haft nein veruleg áhrif á sjóðinn," segir ennfremur.

„Varfærni í útlánum sjóðsins á undanförnum árum gerir að verkum að þrátt fyrir lækkun á verðmæti eigna stendur sjóðurinn áföllin af sér. Eiginfjárhlutfall sjóðsins er yfir öllum viðmiðunarreglum og sparisjóðurinn býr yfir nægjanlegu lausafé til að mæta fyrirsjánlegum skuldbindingum. Innlán hafa aukist að undanförnu og er rétt að undirstrika að allir innlánsreikningar sjóðsins njóta baktryggingar stjórnvalda og því eru sparifjáreigendur öruggir um sínar eignir á reikningum sjóðsins," segir í bréfinu og hvetur stjórn Sparisjóðs Svarfdæla stofnfjáreigendur sjóðsins, viðskiptavini og alla landsmenn til að standa vörð um sparisjóðina í landinu.

Þá vill stjórn Sparisjóðs Svarfdæla einnig ítreka að framkvæmdir við menningarhús á Dalvík, sem var gjöf sjóðsins til samfélagsins í ljósi góðrar afkomu á árinu 2006, munu ganga eftir á þann hátt sem lagt var upp með. „Á sínum tíma innleysti sparisjóðurinn hlutabréf í sinni eigu og lagði til hliðar fyrir þessum framkvæmdum og því hefur þróun undanfarinna mánuða engin áhrif á þær."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×