Innlent

Kalla eftir framtíðarsýn frá stjórnvöldum

MYND/GVA

Samtök atvinnulífsins kalla eftir framtíðarsýn frá stjórnvöldum. Atvinnulífið þoli ekki mikið lengur hina heimatilbúnu óvissu. Á þriðja hundrað stjórnenda ræddu framtíð Íslands á Grand hótel í morgun.

Þór Sigfússon, formaður Samtaka atvinnulífsins, líkti ástandinu við að við værum eins og barnmörg fjölskylda þar sem elsti bróðirinn hefði veðsett húsið. Við krakkarnir værum rekin inn í herbergi á meðan mamma og pabbi reyna að finna leiðir út úr vandanum frammi í stofu. Á meðan festum við ekki svefn, gægðumst fram en heyrðum lítið sem ekkert. Nú væri ástandið aftur á móti orðið þannig að halda þyrfti stóran fjölskyldufund þar sem línan væri gefin, masterplanið kynnt og við öll sett í vinnu.

Þór kallaði eftir því að hinni heimatilbúnu óvissu yrði eytt því atvinnulífið, þrátt fyrir sveigjanleika, þyldi ekki marga daga í viðbót af óvissunni. „Það sem þarf auðvitað er að við þurfum að komast í ástand þar sem við stöndum í báðar lappir og vitum hvert við erum að fara. Það er það sem við erum að kalla eftir líka, að það sé sett fram eitthvert plan til framtíðar þannig að við vitum hvert við erum að stefna,“ segir Þór.

Aðspurður segir Þór að samstarf Samtaka atvinnulífsins við stjórnvöld hafi verið ágætt á síðustu mánuðum en það megi einnig segja að samtökin séu dálítið á áhorfendapöllunum.

Þór kynnti einnig hugmyndir um verkefnalista næstu vikna til að skapa nýtt ísland. Nánar verður fjallað um það í kvöldfréttum Stöðvar tvö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×